Kröftug hitaveituhola í Fljótum

Borun LH-04
Borun LH-04

Borverktakinn VKC ehf lauk á mánudag borun á holu LH-04 við Langhús í Fljótum. Áður höfðu verið boraðar tvær holur á svæðinu af Skagafjarðarveitum sem gáfu samtals um 5 til 6 lítra á sekúndu af um 100° heitu vatni. Ráðist var í borun á LH-04 til þess að reyna að auka vatnsmagnið á svæðinu upp í a.m.k. 8 til 10 lítra á sekúndu. Borun holunnar hófst síðasta haust og var þá borað niður á ca. 100m dýpi og var holan þá farin að gefa um 1 lítra á sekúndu. Samkvæmt skýrslu frá ÍSOR um staðsetningu og væntingar til nýrrar holu var von á vatni á 160 til 240m dýpi. 

Borverktaki hélt áfram þar sem frá var horfið um miðjan júni og þegar borinn var kominn á rétt rúmlega 170m dýpi var rennslið úr holunni komið í um 15 til 20 lítra á sekúndu af 100° heitu vatni! Vatnið er sjálfrennandi úr holunni og er mikill þrýstingur á því, svo mikill að það reyndist erfiðleikum bundið að koma fyrir loka á holutoppinn þar sem strókurinn úr holunni stóð í það minnsta 20m upp úr holunni áður en lokanum var komið fyrir. Á næstu dögum verður lagt mat á heildarrennsli og þrýsting úr holunni. Komið verður fyrir svokölluðum mótorloka á holuna sem stjórnar rennsli úr henni eftir heitavatnsnotkun á svæðinu og kemur því í veg fyrir sóun á þessari dýrmætu auðlind. 

Myndarlegur strókur úr holunni

Það má því með sanni segja að borhola LH-04 við Langhús sé mjög vel heppnuð og hafi farið fram úr björtustu vonum. Skagafjarðarveitur vilja koma á framfæri þakklæti til Þórólfs Hafstað og annara sérfræðinga hjá ÍSOR sem hafa komið að ráðgjöf vegna borana á svæðinu.

Borun LH-04


Svæði

Skagafjarðarveitur   |  Borgarteig 15  |  550 Sauðárkrókur  |  Sími 455 6200  |  skv@skv.is