Saga vatnsveitnanna

Vatnsveitan á Steinsstöðum
Vegna mikils jarðvarma í Tungusveit er öflun neysluvatns miklum erfiðleikum bundin, má segja að heitt vatn spretti upp hvar sem grafið er, en erfiðara er um vik að finna kalt vatn. Um 1950 voru virkjaðar lindir fyrir Steinsstaðaskóla í Reykjatungu, en þær uppsprettur voru lélegar. Árið 1988 var ráðist í talsverðar framkvæmdir þegar þrjár lindir í landi Álfgeirsvalla voru virkjaðar en þær gefa um 80 lítra af vatni á  mínútu. Vatnið er síðan leitt í miðlunartank í landi Saurbæjar og þaðan  inn á lögn sem sér byggðinni á Steinsstöðum fyrir neysluvatni.                    Frá Steinsstöðum. Mynd: Hinir sömu sf. 

Vatnsveitan á Sauðárkróki
Um leið og þéttbýli fór að myndast á Íslandi var ljóst að mikið magn þyrfti af góðu drykkjarvatni til að mæta kröfum íbúanna og koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma, s.s taugaveiki. Sauðárkrókur naut góðs af því að á móbergslagi í Nöfunum fyrir ofan bæinn rennur talsvert magn af góðu vatni og frá upphafi voru ákveðnar lindir notaðar. Sú vatnsmesta var svokölluð Ytrilind sem er fyrir ofan Lindargötu og hún dregur nafn sitt af. Um aldamótin 1900 varð mikil umræða um vatnsöflun fyrir Sauðárkrók og mikilvægi þess að tryggja að yfirborðsvatn kæmist ekki í lindina. Til að fyrirbyggja það var ráðist í nokkrar framkvæmdir. M.a. sett rör í lindina, sem vatnið fossaði úr. Sumir frumbýlingar á Sauðárkróki létu grafa brunna við hús sín, en eftir því sem byggðin teygðist til suðurs varð lengri vatnsvegurinn í lindina.

                                                                                                               Sauðárkrókur um aldamótin 1900. Mynd: G. Benediktsson

Árið 1907 eða 1908 var lögð vatnsveita í sjúkrahúsið við Aðalgötu og æ fleiri íbúar fóru að leggja grunn að því að leggja vatnsleiðslur í hús sín. Um það leyti var orðið ljóst að nauðsynlegt var að leggja vatnsleiðslur í allt kauptúnið. Auk heilbrigðissjónarmiða var ljóst að vegna brunavarna var nauðsynlegt að hafa aðgang að nægu vatni sem víðast um bæinn. Það var þó ekki fyrr en árið 1912 sem framkvæmdir hófust við vatnsveituna og var þeim lokið sama ár. Vatnið var tekið í fjallinu fyrir ofan Hlíðarenda og steypt upp þró þar sem gat tekið við miklu vatnsmagni. Ytrilindin gegndi þó sínu hlutverki áfram og var á árunum fram að Síðari heimsstyrjöld ráðist í ýmsar framkvæmdir til að reyna að tryggja nægilegt vatnsmagn. Meðal annars var ráðist í að steypa mikla þró við Ytrilindina stuttu fyrir 1930 og er sú þró enn greinileg. Vatnsnotkun íbúa á Sauðárkróki jókst gríðarlega á þessum árum, einkum þegar skólpleiðsla var lögð um bæinn á árunum 1942-1943 og öll hús fengu frárennsli og klósett.

Vatnið streymir. Mynd: Kristján C. Magnússon

Árið 1940 var Hraksíðuárveita lögð til að tryggja vatn á hafnargarðinn og árið 1950 var Sauðáin tengd inn á vatnsveituna sem leysti vatnsvanda Sauðkrækinga um nokkurt skeið. Í dag er ferskvatn Sauðkrækinga tekið í fjórum vatnsbólum; á Skarðsdal, við Veðramót, í Sandskarði og Molduxaskarði en í einstaka árum er þetta vatn varla nægjanlegt og er nú leitað leiða til að tryggja aukið neysluvatn á Sauðárkróki.

Heimildir: Viðtal við Jón Nikódemusson f.v. veitustjóra á Sauðárkróki. 
Kristmundur Bjarnason: Saga Sauðárkróks o.fl.

Vatnsveitan í Hofsósi
Lengst af urðu íbúar Hofsóss að búa við að sækja vatn í brunna sem grafnir voru við hús þeirra, eða í Hofsána eftir því sem tök voru á.  Vatnsburðurinn var erfiður og gat jafnvel verið hættulegur, enda bratt að sækja vatn í ána á vetrum og vatnið í brunnunum þraut þegar síst skyldi.

Þegar Hofsós varð sjálfstætt hreppsfélag um 1950 var eitt af fyrstu verkum hreppsins að láta leggja vatnsleiðslu um þorpið. Vatnið var tekið í landi Engihlíðar og byggður mikill vatnstankur sem þjónaði Hofsósi í um hálfa öld. Árið 2000 var byggður nýr vatnstankur miklu stærri eða tæpir 200 rúmmetrar í landi Engihlíðar og sér hann nú Hofsósingum fyrir nægu góðu vatni.

Heimildir: Gögn vatnsveitu Hofsóss o.fl.

Svæði

Skagafjarðarveitur   |  Borgarteig 15  |  550 Sauðárkrókur  |  Sími 455 6200  |  skv@skv.is